
Snemma í vor fékk ég sendingu frá forlaginu Sæmundi á Selfossi sem innihélt tíu eintök af bókinni minni Bréf úr sjálfskipaðri útlegð. Það er svolítið sérstakt að fá bók úr prentun, svolítið óraunveruleg tilfinning, öll vinnan að baki bókinni er horfin í fortíðina og eftir situr hluturinn sjálfur í höndinni. Þó fannst mér ekki að bókin væri raunverulega til fyrr en eftir útgáfuteitið sem haldið var í Bókakaffinu í Ármúlanum þann 6 september. Í útgáfuteitið mættu liðlega 60 manns og það var afskaplega vel lukkað alltsaman (ræðuna mína og upplesturinn má lesa hér fyrir neðan). Ég var orðlaus af stuðningnum, kærleikanum, hlýjunni og vináttunni sem mér var sýnt þarna af öllu þessu fólki sem mér þykir svo vænt um. Gamlir vinir úr æsku, gamlir vinir síðan við bjuggum fyrir norðan, gamlir kennarar og vinir foreldra minna, systkini mín og Söndru, makar og börn sem og frændfólk kom til að vera með mér. Meira að segja doktorsnemi héðan frá Uppsala mætti á svæðið!
Fyrr um daginn þann 6 september voru tekin við mig tvö viðtöl um bókina, annars vegar í Mannlega þættinum á Rás 1 (síðasta korterið um það bil) og hins vegar fyrir Morgunblaðið. Þar má fá aðeins meiri upplýsingar um bókina og voru viðtölin systur minni henni Ástu Sigrúnu að þakka. Það er ómetanlegt að hafa almannatengla í óborguðu starfi við að koma manni á framfæri.
Það er nefnilega núna sem bókin hættir að tilheyra mér og verður hlutur sem aðrir nálgast, handfjatla, lesa, túlka og dæma – hver á sinn hátt. Hver sem hefur lesið Death of the Author eftir Roland Barthes gerir sér grein fyrir að hugmyndir höfundar um eigin texta eða persóna hans eru á engan hátt stýrandi þegar það kemur viðtöku textans. Það er sérstaklega einkennilegt þegar um er að ræða mjög persónulega texta eins og í þessu tilfelli og samtímis er manni umhugað um að sem flestir lesi textann – sem er svolítið mótsagnakennt. Sérstaklega þegar sölumennska er eitthvað sem er manni afskaplega framandi. Mér finnst mjög erfitt að reyna að koma bókinni á framfæri en samtímis er gaman að sjá að hún er nú til á mörgum bókasöfnum bæði í borginni og utan hennar sem og að bunkar af henni hafa fundist í bókaverslunum.
Ég þakka því innilega fyrir mig og vona að fleiri lesi bókina og velti henni fyrir sér. Ég held að hún eigi erindi við marga – líklega ekki öll í heild sinni, en alveg áreiðanlega einhver þemu hennar. Ég á enn helling af eintökum og slatta af bókamerkjum, svo hafið endilega samband ef þið viljið nálgast eintak.

—————–
Ræða mín úr útgáfuteitinu:
Sæl verið þið öllsömul og velkomin, og þakka ykkur kærlega öllum fyrir að vera hérna með mér.
Í sumar lentum við fjölskyldan í því að rómverskir ræningjar brutust inn í bílinn okkar, rændu og rupluðu öllum farangri stelpnanna, rótuðu gegnum fötin mín og skildu þau svo öll sömul eftir.
Það var móðgun í sjálfu sér en ég hef fyrir vikið enga afsökun fyrir hvernig ég lít út.
Ég gerði sjálfum mér þetta. Viljandi.
Það er sérkennilegt ferli að gefa út bók. Ég hef verið viðriðin nokkur slík verkefni og þau eru yfirleitt þannig að þegar maður loksins skilar „lokahandritinu“ frá sér fær maður það til baka með athugasemdum nokkrum vikum seinna. Maður leiðréttir það sem þarf, sendir „lokalokahandritið“ inn, fær það aftur, sendir inn lokaloka-handrit-FINAL og er tilkynnt að loksins sé handritið komið til útgáfunnar.
Þá á maður líklega bara eftir að lesa það yfir svona þrisvar í viðbót – fyrst með athugasemdum yfirlesara, svo aftur þegar komið er umbrot að bókinni, og svo lokalestur áður en kvikindið er sent í prennt. Þá er maður yfirleitt orðinn svo þreyttur á textanum að maður vill aldrei sjá hann aftur og því er ágætt að það líða nokkrar vikur svo manni takist að gleyma bókinni áður en hún loks lendir í höndunum á manni.
Þessi bók er samt svolítið öðruvísi því textarnir í henni standa mér nærri en þeir fræða og umræðutextar sem ég skrifa yfirleitt, en hún safnar saman esseyjum sem ég skrifaði í nokkrum sprettum árið 2021 og ljóðum frá ca. 2002 fram til dagsins í dag.
Ég legg svolítið uppúr þessu með að þetta séu einmitt esseyjar, því ég er fyrst og fremst að leika mér með esseyjaformið til að spekúlera og stúdera lífið og tilvistina. Innblásturinn kemur ekki síst frá frábærum esseyistum eins og Söru Danius, Zadie Smith og Brian Dillon, sem eiga það öll sameiginlegt að skrifa útfrá hinu hversdagslega og persónulega. Hér er ég að rembast svolítið við sömu pælingu. Esseyjarnar eru fyrir vikið mjög persónulegar en þetta eru ekki drög að ævisögu.
Mér er búið að takast að gleyma þessari bók oft og ég áttaði mig fyrst á því þegar flugið og dagsetningin fyrir þetta hóf var bókað að aðrir ættu eftir að lesa hana – og ég er held ég stoltastur af því að standa uppréttur hér í kvöld frekar en í fósturstellingu uppí rúmi. Ég fékk góðann yfirlestur á handritinu frá systur minni henni Ástu Sigrúnu og kollegu minni og vinkonu Berglindi Rós Magnúsdóttur sem og Söndru minni – sem er því miður föst í Svíþjóð ásamt stelpunum okkar.
Höfundar eru vanir að segja að þeir beri að einir alla ábyrgð á textanum og svo er að sjálfsögðu hér líka – en enginn yfirlesaranna reyndi að stoppa mig frá að gefa hana út svo þetta er kannski pínulítið þeim að kenna líka.
Bókin er tileinkuð henni Söndru minni, ævifélaga og ástarinnar í lífi mínu.
Ég ætla núna að lesa úr bókinni texta sem heitir Efinn – en með velvöldum styttingum.
Efinn
Þegar ég var sex ára, alveg að verða sjö, eignaðist ég litla systur. Mig langaði eiginlega meira í folald því ég hafði mjög gaman af að fara á hestbak. Ég var meira að segja búinn að tjá foreldrum mínum það margoft, en nú fékk ég systur og það varð víst að duga. Það var enginn skilamiði á henni og kvittun gat enginn grafið fram. Svona eftir á að hyggja voru þetta ágætis skipti, hestur lifir ekki nema 25–30 ár að meðaltali svo folaldið myndi vera fallið frá nú þegar og hafa valdið mér mikilli sorg, en systir mín er mér enn til ómældrar ánægju og gleði.
Foreldri mín voru um þessar mundir að átta sig á því sem flest foreldri skilja fyrst eftir að annað barnið fæðist – eins og sagt er á sænsku: eitt barn er ekkert barn en tvö börn eru tíu. Mamma og pabbi ákváðu fyrir vikið að senda mig að heiman í nokkrar vikur meðan þau væru að átta sig á viðbótinni við fjölskylduna og koma skipulagi á sín mál. Ég hef ákveðinn skilning á því. Mig hefur oft langað að senda nákomna í burtu í nokkrar vikur.
Ég var sem sagt sendur í sumarbúðir í Kaldárseli, rétt fyrir utan Hafnarfjörð, í tvær vikur í júní, skömmu eftir að systir mín fæddist.
Þess má þá geta að Kaldársel er rekið af KFUM/KFUK og sumarbúðirnar voru fyrir vikið kristilegs eðlis, einskonar trúboðsbúðir og forstöðumaðurinn meira að segja fyrrverandi trúboði sem ferðast hafði víða um heim sem slíkur. Ég sótti sumarbúðir þarna árlega í mörg ár og minningarnar frá Kaldárseli eru mestmegnis ljósar í mínum. Langflestir strákarnir (við vorum bara strákar þessar vikurnar) mynduðu teymi kringum virki, byggðu sér sem sagt virki úti í hrauninu og eyddu dögunum í hernað milli þeirra.
Fyrsta sumarið komst ég ekki í neitt virki, svo ég raðaði hraunmolum í hring nálægt búðunum hinu megin við ána, festi saman spýtur í krossa og þóttist vera prestur í kirkjugarði. Hin sumrin hentist ég þarna um með öðrum í leikjum, í lífi sem var markað fullkomnu frelsi og einbeittri innrætingu. Við svolgruðum í okkur vatnið beint úr Kaldánni, fórum í hellaskoðunarferðir í hrauninu og fjallgöngur á Helgafell, heyrðum og sögðum draugasögur (upplifðum jafnvel draugagang). Þess á milli var morgunmatur, hádegismatur, kaffitími og kvöldmatur og okkur kennt sitt lítið af hverju um Jesú, Guð, boðorðin og Biblíuna og látnir æfa bæði sálma og bænir á samverustundum.
Þegar hundrað krökkum er safnað saman í tvær vikur í sumarbúðir er að ýmsu að huga. Heill hellingur af bókum og Andrésblöðum, leikföngum og fatnaði flæðir inn í húsið og þarf að henda reiður á þessu öllu saman. Lausnin sem notuð var í Kaldárseli var einföld. Allir hlutir, sem og plögg, skyldu merkt með nafni og númeri hvers einstaklings. Við fengum svo kojum úthlutað, sem og skápum með snögum, og þar skyldi föggum okkar vera safnað og skilað og við sem komum í búðirnar ár eftir ár héldum okkar númerum. Hér kemur að kjarna þessarar sögu.
Ég var nýlentur í Kaldárseli ásamt hópi drengja sem yfirgáfu foreldri sín við gamla KFUM-húsið í Hafnarfirði með rútu skömmu fyrr um daginn. Við tókum föggur okkar og var vísað inn í húsið og að rýminu þar sem dótinu okkar skyldi skilað. Strákurinn vinstra megin við mig fékk númerið 665 og strákurinn hægra megin við mig númerið 667.
Ég fékk töluna 666.
Ég man ekki eftir að hafa pælt neitt sérstaklega í tölunni áður en við komum á staðinn. Mamma var búin að merkja allt og segja mér að fylgjast vel með dótinu mínu. Mér fannst þetta einföld tala að muna, en eins og við lærðum þetta sumar í kristnifræðslunni í einhverjum kaffitímanum var Adam ekki lengi í Paradís. Eldri strákur, kannski svona níu eða tíu ára og líklega eigandi eldri bróður eða systur sem hlustaði á Iron Maiden, vatt sér að mér og sagði „Au, ertu með 666! Veistu ekki hvað það þýðir?“
Stráksi tilkynnti svo mér og öllum öðrum í herberginu umsvifalaust að talan mín væri tala djöfulsins, og að ég væri merktur djöflinum. Ég leit á hina krakkana og svipaðist um eftir einhverjum fullorðnum sem gæti blandað sér í málin og sá fullorðni gerði samstundis lítið úr þessu öllu saman, sagði að þetta væri ekkert til að taka alvarlega, jafnvel þótt það væri í Biblíunni eins og sá sem hafði hlustað á Iron Maiden hélt fram. Og svona var efafræinu sáð í hjarta mér fyrsta daginn í kristniboðsbúðunum í Kaldárseli.
Talan 666 hefur fylgt mér alla tíð síðan. Ég á enn Enid Blyton bækur merktar tölunni og nafninu mínu, Gunnlaugur Magnússon 666, ritað með fínlegri og skýrri rithönd mömmu. Sexurnar eru með löngu skefti, svo oddmjóu efst svo maður sér varla hvar þær byrja – svo létt hefur mamma borið pennann að blaði – og gildna svo niður í nett hringformið neðst. Nafnið mitt og tölurnar urðu samtvinnaðar í huga mér eins og þau stóðu á merkimiðunum sem straujaðir voru í fötin mín, skrifuð inn í stígvélin og rituð á boltann minn: Gunnlaugur Magnússon 666. Ég skrifaði tölurnar oft sem unglingur, sérstaklega þegar ég fór að kafa meira í þyngri tónlist og véfengja trú mína kerfisbundið. Það er ákveðið satanista-kred fólgið í að hafa verið úthlutað tölum djöfulsins sem barni í kristnum sumarbúðum. Ég skrifa þær meira að segja stundum við nafnið mitt enn í dag, svona til að stytta mér stundir.
Gunnlaugur Magnússon 666.
Það er ekkert að marka þetta um tölu djöfulsins sagði starfsmaðurinn. En ef ekkert er að marka einmitt þetta úr Biblíunni … eru þá aðrir hlutir sem er ekkert að marka í henni? Hvaða hluti er að marka? Jesús gekk á Genesaretvatni, breytti vatni í vín og reis upp frá dauðum, fékk dauða til að ganga og læknaði holdsveika. Guð dæmir lifendur og dauða og vill ekki að maður ljúgi, myrði eða girnist konu grannans. En þetta þarna með 666, því þurfti ekki að taka mark á.
Eins og flest íslensk börn á þessum tíma var ég alinn upp í einskonar barnatrú. Ég var signdur þegar ég fór í nærbolinn þegar ég var lítill, vissi að Jesús fæddist á jólunum og að guð passaði mann á nóttunni og að maður ætti að fara með bænirnar:
„Vertu Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni. Viltu passa uppá ömmu og afa og ömmu og afa og mömmu og pabba. Mig langar rosalega í folald.“
Svo settust englarnir saman í hring við rúmið mitt, Jesús hafði þar sess og sæti og ég sofnaði fullviss um að allt væri á réttum stað í heiminum og að ósýnileg hönd passaði upp á mig og allt mitt fólk.
Svo var ég merktur með tölu djöfulsins á stað þar sem við vorum stanslaust að biðja til guðs og var kennt að fylgja öllum reglunum hans. Ég hugsa að ungur barnshugur minn hafi orðað viðbrögð sín með einhverju sem samsvarar WTF? Ég reyndi að átta mig á þessu, ég las meira að segja Biblíuna. Ég las hana meira að segja aftur. Ég vildi endilega trúa og ég lagði vinnu í það. Ég vildi það sérstaklega mikið kringum ferminguna því ég ætlaði ekki að fermast bara fyrir gjafirnar, ég væri sko enginn hræsnari. Það var oft erfitt, því efinn óx í brjóstinu með árunum. En ég rembdist við að trúa og fermdist trúaður en missti svo trúna endanlega svona korteri síðar. Og ég sakna hennar enn.
Ég sakna þess að trúa ekki en ég get með engu móti galdrað trúna fram aftur. Á tímabili las ég mér mikið til um trúleysi en með tímanum hætti trúleysið að vera meðvitaður hluti af sjálfsmynd minni, það þurfti ekki á endurtekinni staðfestingu að halda með yfirlýsingum eða rökræðum. Trúleysið var bara þarna. Samtímis sá ég hvað trúin gaf fólki sem mér þótti vænt um, fólki sem fann samtímis huggun og von í trúnni. Oftast í einhverskonar barnatrú, en samt. Ég öfunda þau öll og brýt fyrir vikið boðorðin, því hver þarf ekki á huggun og von að halda í hörðum heimi.
Efinn óx og lagði rætur sínar í þau rými hjartans sem trúin átti að fá festu í. Efinn er fyrsta svarið, efinn er eðlislægur mér sérstaklega hvað varðar eigin valkosti og leiðir. Efinn er það verkfæri sem nýtist mér best í starfi. Hann er mér svo eðlislægur að ég þarf oftast að leggja hann meðvitað til hliðar og hunsa hann. Það er eina leiðin til að taka ákvarðanir – að ganga gegnum dyrnar sem opnast og loka þeim á eftir sér. Að flytja til útlanda og vera þar áfram. Fá vinnu og vera þar. Fá nýja vinnu og loka á eftir sér dyrunum. Halda aftur af efanum með óafturkræfum ákvörðunum. Því eina vissa trúleysingjans er sú sem hann skapar sér sjálfur og tilgangur lífsins fólginn í lífinu hér og nú. Trúleysinginn verður að verja lífinu sómasamlega og vera öðrum til góðs af engum öðrum drifkrafti en þeim sem hann ber innra með sér.
Ég bý núna í einu trúlausasta landi heimsins, hér fermast fáir. Börnin okkar voru hvorki skírð né alin upp við kvöldbænir eða biblíusögur. Það var okkur ómögulegt að vígja þær inn í trúarsamfélag sem við tilheyrðum ekki lengur sjálf. En dæturnar eru enn meira raunhyggjufólk en ég sjálfur, eins og þetta samtal við yngri dóttur mína sýnir:
5 ára: þarna er tunglið, pabbi. Þar er allt dauða fólkið sem fór til himna.
Ég: OK. Hvað gerir það þar?
5 ára: Ekki neitt. Það er dautt.
Kannski hefði ekkert verið vitlaust að ala dætur mínar upp með pínu-ponsu barnatrú, þó það væri ekki nema til að mér renni ekki kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég ræði tilvistarmál við þær, en væntanlega væri Jesú jafnilla við hræsnara nú sem hér áður fyrr og þrátt fyrir allt vil ég sem trúleysingi að reyna að vera góð manneskja og forðast að vera hræsnari. Þannig var maður nú alinn upp.
En yngri dóttir mín sem nú er orðin tíu ára og sem vill endilega eignast litla systur fær að fara vikulega á hestbak í staðinn.







