Þá er búið að senda handritið að bókinni minni, Bréf úr sjálfskipaðri útlegð, í prentun sem þýðir að hún komi líklega til Íslands eftir einn til tvo mánuði. Öll vinnan við fráganginn að handritinu gekk mjög vel og hratt fyrir sig. Ég hef tekið þátt í bókaútgáfum á nokkrum bókum hér erlendis, bæði sem kaflahöfundur og sem aðalhöfundur og reynslan var alltaf að hvert stig tæki nokkrar vikur og mánuði fyrir sig. Fyrsti yfirlestur kom eftir bara tvo daga, umbrotið tveimur dögum seinna, seinni yfirlestur og kápuhönnunin á innan við viku.
Samstarfið við Aðalstein Svan Sigfússon sem hannaði kápuna og sá um umbrotið var alveg frábært, og yfirlestur hins Aðalsteinsins (Eyþórssonar) var bæði nákvæmur og betrumbætandi. Ekki síst tók hann eftir skorti á samræmi í skipulagi ljóðanna sem var hægt að lagfæra.

Hér má sjá kápuna, sem mér þykir ákaflega falleg. Aðalsteinn Svanur tók myndina sem með dulúðlegri þokunni og fjallasýninni og þessu klassíska íslenska landslagi fangar bæði söknuðinn, hugleiðinguna og tilraunina til að fanga hið fjarlæga sem ég vona að lesendur finni að sé í forgrunni bókarinnar.