Bréf úr sjálfskipaðri útlegð

Vorið 2022 gekk ég frá bókarhandriti með safni af esseyum og ljóðum og er nú með samningsdrög hjá bókaútgáfunni Sæmundi.

Sá fylgir böggull skammrifi að höfundur lofar að kaupa hluta af upplaginu til að deila áhættunni milli aðila, svo til að dæmið gangi upp þyrfti ég að selja ca. 100-150 eintök af bókinni sjálfur, helst sem mest í forsölu.

Því vil ég nú kanna áhuga fólks á þessu kveri mínu. Ég læt hér fylgja hlekk á eina af esseyunum á heimasíðunni minni svo þið fáið innsýn í þessi skrif:

Eldri útgáfa af einni esseyanna í bókinni var birt á Kjarnanum 2019 og þrjár þeirra hafa verið birtar á sænsku á menningartímaritinu Magasin Opulens.

Handritið heitir Bréf úr sjálfskipaðri útlegð og fjallar um ýmsa tilvistarspekilega vinkla á það að átta sig svo á því að maður sé búinn að vera liðlega tuttugu ár – nær öll fullorðinsár sín – erlendis, og eigi líklega ekki afturkvæmt „heim“.

Esseyarnar fjalla um tíma, efa, söknuð, sorg, gleði, andlega heilsu, fögnuð og samband einstaklingsins við land og samfélag. Sjónarhornið er persónulegt en ég reyni að velta fyrir mér hlutunum á hátt sem fleiri nái að tengja við. Ljóðin kallast svo á við esseyarnar.

Nokkrar leiðir eru til boða til að kaupa bókina í forsölu (áritun fylgir til allra sem þess óska):

  1. Eintak má kaupa á 4500 kr frá mér (mun kosta 5990 í verslun).
  2. Einnig er hægt að kaupa eintak á 5000 kr og fá með því bókamerki með ljóði úr bókinni.

Endilega kíkið á og lesið esseyna og látið mig vita hvort það sé áhugi fyrir að taka þátt í þessu með mér með kaupum á eintaki af bókinni, t.d. gegnum þennan hlekk hér.

Með ástarkveðju,
G

Comments are closed.

Blog at WordPress.com.

Up ↑

%d bloggers like this: