“Allir þessir dagar…”

Einu sinni, fyrir örugglega hundrað árum síðan, gekk ég um götur í Oslóarborg og rakst þar á lítinn bronsskjöld á húsvegg. Á honum stóð ljóðið Förlusten (missirinn) eftir sænska ljóðskáldið Stig Johansson[1] á norsku:

„Allir þessir dagar sem komu og fóru
ekki vissi ég að þeir væru lífið“

Skilaboðin eru svo skýr, eru öllum ljós sem lesa þau, en eiga samtímis endurtekið erindi við okkur öll þar sem það er ómögulegt að eyða lífinu með þennan fullkomna sannleika í forgrunni. Ég hripaði niður orðin af bronsskildinum í litla vasabók sem ég var með á mér og síðar skrifaði ég ljóðið á lítinn miða og hengdi upp á skrifstofunni í vinnunni, yfir lítilli mynd af konu minni og börnum með sólsetur í bakgrunni við fallegt vatn. Samansafn af því dýrmætasta sem ég á í lífi mínu, fólkið mitt og ljúf minning um góðan dag sem kom og fór.

Ég er ekki einn um að hafa verið snortinn af þessu ljóði, maður rekst oft á það í sænsku samfélagi. Það er vitnað í það í útvarpsþáttum, blaðagreinum, ritgerðum og ræðum. Það er skrifað á samfélagsmiðla og hengt við ljósmyndir af fólki sem dáist af sólsetri yfir fallegum vatnsfleti. Það er sagt með þungum rómi (kannski bara fyrsta línan) á kaffistofunni þegar einhver klárar dagana sína og fellur frá eða með léttum rómi þegar einhver fer á eftirlaun því eftirlaunaþeginn ræður sjálfur yfir dögunum sínum. Stundum er ljóðið afbakað til að passa við einhver sniðug skilaboð, stundum er gert grín að því og það borið fram sem dæmi um tilvitnun sem virðist djúpúðugri en hún eiginlega sé. Svolítið eins og tilvitnunin í Lennon um að lífið væri það sem gerðist þegar maður væri að skipuleggja aðra hluti. Svo skipulagði einhver að skjóta Lennon sem dó og skipulagði ekkert meir. Það er myrk áminning um skilaboð bæði tilvitnunarinnar í Lennon og ljóðsins hans Stig Johansson.  

Allir þessir dagar sem koma og fara. Ég hef borið þetta ljóð og skilaboð þess með mér, en engu að síður hafa svo margir dagar farið framhjá mér. Það auðveldasta að benda á eru að sjálfsögðu dagar sem eytt er i vinnu sem er engum til ánægju. Til dæmis fundadagar. Allir þessir fundadagar. Það hefur þó farið ansi mikið skánandi eftir að ég skipti um vinnustað. Fyrri háskólinn minn var fundaóður, það voru skyldufundir lagðir á heila daga oft í mánuði og það skipti engu máli þótt ekkert hefði gerst síðan síðast eða þótt sama fólkið væri að hittast í sama herbergi til að ræða sömu hlutina en bara með nýju fundanafni. Verstir voru svokallaðir kick-off-dagar sem var oft splæst saman við „endurmenntun“ þar sem einhver kauði utan úr bæ, með takmarkaða innsýn í starfsemi háskóla, kom og sagði háskólamenntuðu fólki sem starfaði við háskóla hvernig það ætti að endurhugsa háskólastarf, gjarnan studdur mistúlkunum á grískum heimspekingum sem áheyrendur þekktu mun betur en ræðuhaldarinn. Ég fann stundum lífið líða úr mér á slíkum dögum; þar var mínútum brennt út í algleymið sem ég fæ aldrei tilbaka og sem aldrei nýttust til neins nema þess að deildarstjórinn gat sagt að endurmenntunarinngrip hefði átt sér stað fyrir allt starfsfólk deildarinnar.

Þó eru sárari dagarnir sem ég hef misst frá mér af eigin atorkuleysi. Dagar sem ég hef legið eins og lamaður í stofusófanum eða setið eins og steinrunninn fyrir framan tölvuskerm og engu komið í verk. Sumir þessara daga voru einfaldlega undirseldir kvíðanum, aðrir undir oki þunglyndis, flestir þó sambland af báðu. Dagar þar sem maður rétt gat safnað saman orku og vilja sem dugði til að drattast framúr og koma krökkunum í skólann og eyddi svo restinni af deginum eins og fastur í gráu sírópi sem hægði á öllu nema tímanum. Dagar þar sem maður hefur fyrir hverju andartaki eins og maður dragi það gegnum þykkan efnisbút og þarf að hvílast milli þeirra. Svo skrapar maður saman leyfunum af sparaðri orku dagsins, sækir börnin, skutlar á æfingar, eldar, svæfir og endurtekur svo sama pakka næsta dag. Þeir dagar eru sárastir, þeir renna saman, samansafn grámans. Allir þeir dagarnir sem komu og fóru. Ég vil ógjarnan hugsa til þess að þeir hafi verið lífið.

Við viljum auðvitað heldur hugsa til daganna sem eru bjartir í minningunni, daga sem eytt var í góðu veðri eða að minnsta kosti í góðum félagsskap. Minnast daga sem eru skemmtilegar sögur eftir á (jafnvel þótt sögurnar lýsi atburðum sem voru erfiðir í stundinni). Dögum sem eytt var i umferðarteppur og biðraðir, búðaferðir og áfyllinga á bílinn, flugvallarbið og lestarferðir í vinnuna, ælupestir og vökunætur, þeir eru líka lífið en við teljum þá ógjarnan með.

Allir þessir dagar sem komu og fóru.

Helst af öllu viljum við muna eftir dögunum okkar og muna eftir þeim á góðan hátt. En það er ómögulegt að muna eftir dögunum öllum, minnið er takmarkaðra en lífið fyrir okkur flest og öllum er okkur gert að upplifa daga sem við helst vildum gleyma. Amma mín Sigrún sagði þó alltaf að uppáhaldsorðið hennar væri orðið „manstu“. Ég held að ég sé sammála henni. Orðið er reyndar ekki fallegt, önnur amma sem ég kynntist, norsk, lagði meira uppúr fagurfræði orðanna þegar hún sagði mér að orðin „eldspýtur“ og „klakabrynja“ væru uppáhalds íslensku orðin hennar. Orðið manstu er ekki neitt voðalega fallegt. Þá eru orð eins og sumarkvöld, blóðberg og heimsendi betri. En merking orðsins og notkun er einstök: manstu – með þessum tveimur stuttu atkvæðum köllumst við á við huga annarrar manneskju, við tengjum hugi okkar og rifjum upp atvik og persónur, staði og tilfinningar.

Manstu.

Þegar það er notað rétt, er ekkert fegurra orð í íslenskunni. Svíarnir með sitt kommer du ihåg og danirnir með husker du – hafa bara augljósar klambrasmíðar milli handanna, vandræðalegar í samanburði við manstu. Remember enskunnar er svo sem ágætt, re-member, en það er búið að juða því út í auglýsingaherferðum fyrir bæði kreditkort og ferðaskrifstofur. Það má þynna út hvað sem er í þágu sölumenskunnar.

Manstu.

Best er orðið þegar það varðar hlýjar og góðar minningar, auðvitað þarf stundum að rifja upp verri hluti líka í sameiningu, ekki síst þegar það kemur að telja til alla dagana sem komu og fóru. Sumum okkar eru gefið fleiri slæmar minningar en öðrum og ofskammtað erfiðum dögum meðan önnur eiga ofgnótt af góðum hlutum að rifja upp. Ég ímynda mér stundum hvað gæti fylgt orðinu manstu í notkun dætra minna á orðinu í framtíðinni. Við foreldrin reynum að minnsta kosti eins mikið og við getum að skapa þeim góðar hlýjar minningar til að ylja sér við í framtíðinni – framtíð sem virðist bæði hörð og óörugg á tímum loftslagsvár, heimsfaraldurs, aukinna áhrifa öfgahægriafla um Evrópu alla og tíma síðkapítalismans sem nagar sundur möskva öryggisneta velferðakerfanna. Vonandi muna þær ljúfar stundir á ferðalögum, spilakvöld í sumarbústöðum, sundlaugarferðir, sumarkvöld við stöðuvötn, góðan mat og sögustundir. Vonandi sækja þær hlýju og yl í minningar, og ég vona að mér auðnist að veita þeim öryggi og fullkominn stuðning, hverjar sem þær eru og hvað sem þær gera.

Við getum þó ekki gefið þeim góðar minningar alla dagana. Við höfum ekki einu sinni umráð yfir dögum þeirra lengur, skólakerfið og vinir þeirra gera kröfu á allflesta daga þeirra nú þegar. Við bíðum á meðan og horfum á þær vaxa fyrir hvern dag, fyllt stolti og áhyggjum. Spennan milli áhyggju og gleði er kannski það sem einkennir foreldralífið meir en nokkuð annað. Að horfa á börnin sín og geta varla beðið eftir að sjá hvernig þær munu þroskast og stækka og samtímis horfa til baka til minninganna um þær litlar og sakna þeirra.

„Manstu“, sagði amma mín, „það er fallegasta orðið á íslenskunni“. Við getum rifjað upp góðar stundir saman og þegar fólk er fallið frá sem okkur þykir vænt um getum við galdrað þau fram í huga okkar, heyrt rödd þeirra og fundið faðminn, séð svipbrigði og rifjað upp atvik. Og stundum fylgir sorg upprifjuninni, einnig þeim um góðar stundir. Ekki síst þeim um góðar stundir. Tilhugsunin um litla líkama dætra minna liggjandi með andlitið sitt í lófanum og bleyjurass í olnbogarótinni. Fyrstu brosin, fyrstu skrefin, fyrstu orðin…. Annað sænskt ljóðskáld, Bodil Malmsten, fangaði þessa spennu svo vel í eftirfarandi ljóðbroti[2]:

Ekkert má koma fyrir þig
Nei hvað segi ég
Allt verður að koma fyrir þig
og það verður að vera yndislegt

Komdu til baka
Komdu til baka

Meira að segja minningar um vökunætur með ælupest, heimsóknir á slysó og tilfinninguna þegar maður hélt að barnið hefði týnst í búð geta fengið ljúfsáran blæ þegar börnin manns sitja allt í einu sem unglingar við hliðina á manni og ræða pólitík og spila tónlist á leið í fyrstu flugferðina sína á eigin spýtum.

Hvert fór tíminn? Allir þessir dagar sem komu og fóru… voru það þeir sem komu fyrir þig barn? Voru það dagarnir sem komu og fóru sem stækkuðu þig og gerðu að sjálfstæðum einstakling með réttlætiskennd og skoðanir? Hvernig laumuðust þeir upp að þér? Ég hef varla haft af þér augun nema þegar ég svaf og þegar þú varst í skólanum kannski…. voru það þeir sem voru lífið?

Komdu tilbaka!
Nei, annars.
Vertu alveg eins og þú ert
og leyfðu lífinu að „koma fyrir“ þig.
Látum það vera yndislegt.

Allir þessir dagar sem komu og fóru, allar þessar stundir sem liðu hjá. Hlýjustu minningarnar eru oft um samveru í góðum hóp. En við getum aldrei verið alltaf saman. Ég sem kem bara til Íslands af og til finn stundum mikið fyrir dögunum sem komu og fóru án samveru. Ég man sérstaklega eftir því þegar við hjónin komum til landsins eftir langa fjarveru og urðum vör við hversu margir dagar höfðu liðið því það var búið að byggja heilt hverfi á Völlunum og færa veginn gegnum Hafnarfjörð ofan við kirkjugarðinn. Við vorum ringluð og lengi að átta okkur en skýringin var ósköp einföld – lífið tók ekki pásu á Íslandi meðan við vorum í Svíþjóð. Dagarnir komu og fóru á Íslandi líka, lífið leið rétt eins og í Svíþjóð og allt kom fyrir alla á meðan.

Við sjáum líka breytingar á fólkinu, ekki bara bæjunum. Vinirnir verða eldri og ellilegri (sem er merkilegt því ekki verðum við vör við sömu breytingar í speglinum). Systkini þroskast, eignast maka og börn, skilja og eignast nýja maka og börn, fara í nám, fá ábyrgðarfullar stöður á mikilvægum stöðum, bjarga lífum og skipuleggja atburði, búa til listaverk og hugsa um fólkið sitt. Foreldrin eldast, ömmur og afar veikjast og falla frá. Sumar minningar halda sumum í sundur en minningarnar sem halda okkur saman verða ljúfsár haldreipi í stríðum straumi daga sem renna gegnum okkur. Straumur daga sem koma fyrir okkur. Líf sem kemur fyrir okkur. Það er kannski ekki síst fjarveran fremur en samveran sem svíður í minningunum þegar maður býr í öðru landi: að geta ekki verið með þegar vinir giftu sig, geta ekki hjálpað systkinum að mála þegar þau flytja, að missa af laufabrauðsskurðinum ár eftir ár eftir ár, að hitta ekki börn fjölskyldumeðlima nýfædd. Að ná ekki að heimsækja ömmur og afa oftar þrátt fyrir vissuna um að tíminn sé naumt skammtaður. Að sjá foreldrin eldast og geta ekki verið þeim stoð.

Móðurbróðir minn sem bjó í Svíþjóð eins og ég og vann við Uppsalaháskóla eins og ég og dó alltof ungur, bara jafngamall mér, orti þegar hann var enn yngri ljóð sem bar með sér innsæi eldri manns. Þetta ljóð las ég yfir kistu mömmu hans í jarðarför hennar, jarðarför ömmunnar sem elskaði orðið manstu. Ég mundi þegar ég las ljóðið að hún hafði oft farið með lokaerindi þess fyrir mig, eins og til að minna mig á að ég yrði að gera það sem ég yrði að gera og vera þar sem ég þyrfti að vera og láta dagana líða þrátt fyrir að það væri stundum sárt.

Einn af öðrum
tínum við dagana
af meiði sínum,
kveðjum við ár
og fögnum nýjum
hver með nokkrum trega.

(…)

En til lítils er að sýta
hin glaðværu andartök
stundir og ár
að baki.
Þegar ný sól rís
með morgni,
og hver stund dýrmæt.[3]

Til lítils er að sýta hið liðna, hin glaðværu og hin döpru andartök. Það þýðir þó ekki að við eigum ekki að hlúa að þeim og rifja upp þegar þarf, það er hluti af lífinu að muna. En fortíðina er erfitt að fanga í lófa sér. Þá er kannski mikilvægara að reyna að smíða fleiri stundir í óvissri framtíð með samveru, hlýju, minningum og björtum dögum sem koma og fara.

Að láta ekki lífið líða bara líða hjá heldur tína úr því daga til að muna.


[1] Stig Johansson, Den kapsejsade himlen. 1984

[2] Bodil Malmsten, Det här är hjärtat (1993). Reyndar fjallar ljóðið um vin hennar sem dó, en mér finnst það engu að síður lýsa foreldraspennunni vel.

[3] Gísli Ágúst Gunnlaugsson, Gerðir, 1973

Comments are closed.

Blog at WordPress.com.

Up ↑

%d bloggers like this: