Elegía um afa

Geng milli aldinna eika,
yfir járnaldargrafir
og gleymda múra

Hér hefur fólk lifað og dáið
um árþúsundir
fallið hafa frændur
og fegurstu tré

Grafhaugarnir minjar
um liðna tíð,

en ekki um þá dauðu,

heldur um þau sem lifðu og
minntust með mold og steinum.
Samfélög syrgjandi sála

Það er napur janúarmorgunn, mánudagur og börnin farin í skólann svo ég fæ mér svolítinn göngutúr áður en ég hefst handa við verkefni dagsins. Það hefur verið hlýtt undanfarið, nokkrar plúsgráður hafa séð til þess að enginn snjór liggur á jörðu, en í dag er hitinn rétt undir frostmarki og rakinn eftir regn síðustu daga myndar hrím á grasi og greinum, þunna skel á drullupollum malarstíganna og hálku undir fæti. Það er fegurð í þessum kulda, lífið hjúfrar sig saman og bíður vors. Spegilslétt stöðuvatnið gerði haustið svo montið að það drekkti sér í fegurð sinni, og vetur hætti sér fram seint um síðir, fölur úr sínu hýði. Dádýr hrökkva úr dvala og stökkva af stað þegar þau heyra í mér koma gangandi – meira að segja manneskjur í dapurlegum hugleiðingum eru þeim hættuleg.

Ég hugsa um hann afa minn og nafna sem liggur á sjúkrahúsi fjörgamall og mikið veikur. Hann er síðasti eftirlifandi hlekkur fjölskyldunnar úr sinni kynslóð og er sem slíkur að trosna endanlega upp. Það færir keðjuna alla nær endalokum sínum en við yngri kynslóðirnar höfum lagt fleiri hlekki við hinn enda keðjunnar.

Ég er dapur þennan dag, því ég geri mér grein fyrir að það líður að lokum. Og samt er ekkert nema fegurð sem umkringir mig þennan hversdagslega janúardag. Himinninn er hvítur, eins og ullarvoð hafi verið dregin yfir heiminn, og hrímið ýtir undir hvíta ásýnd hans. Það er logn, eins og bara verða í útlöndum, og kyrrðin eins mikil og hægt er á ökrum í jaðri borgar þar sem umferðarniður er ætíð nálægur. Hópar af gráþröstum flækjast syngjandi milli reynitrjáa inni í afgirtum haga þar sem lömb eru oft höfð að sumri en síðustu berin eru löngu fallin svo ekki finna þeir mikið í gogginn þar. Mér verður hugsað til kyrrðarinnar á heimili ömmu og afa, þar sem það gat orðið svo hljótt að ekkert heyrðist nema gangverkið í gömlu langafaklukkunni; kyrrð sem var svo rofin af hávaðanum þegar klukkan sló tímann, heilan eða hálfan. Og svo hugsa ég til allra stundanna þar sem allt annað en kyrrð réð ríkjum heima hjá þeim. Hópar fólks í matarboðum, samtöl um allt og ekkert, börn að leik, eldamennska og tónlist, faðmlög og tár, hlátur og gleði, stundum rifrildi og tuð – það var þrátt fyrir allt um manneskjur að ræða.

Sálmurinn „Heyr himnasmiður“ sækir á mig. Líklega vegna þess að ég er að hugsa um afa, gamla kórsöngvarann sem söng með Pólýfónkórnum í fjölda ára. Við höfum svo oft hlustað á tónlist saman og ég á held ég allt sem hægt er að komast yfir með gamla kórnum hans á vínilplötum. Ég bý þess vegna að því að geta hlustað á röddina hans innan um allar hinar, þar sem fjöldinn skapar eitthvað annað og meira en summu einstakra radda sem fléttast saman í guðdómlega fegurð, tímalausa þrátt fyrir að fegurðin hafi verið skafin í plast fyrir 50 árum. Það huggar núna þegar ég get ekki hringt í hann og skálað við hann gegnum símann.

Hann sendi mér sérstaklega írsk kristalglös svo við ættum eins glös til að skála með í gegnum símann. Ég hef alltaf reynt að eiga kvöldstund með honum þegar ég er á landinu og við elduðum oftast skeljar, hlustuðum á tónlist og skáluðum í góðum veigum. Afi sagði alltaf að maður verði ekki timbraður af góðu víni. Það er auðvitað ekki satt, en maður véfengir ekki afa sinn á þriðja glasi. Táreygðir sátum við skrafandi, rifjuðum upp minningar og söknuðum saman. Glöddumst yfir stundinni og framtíðinni sem börnin mín báru vitni um.

Nafni minn
ríflega níræður,
tæplega tíræður,
skálar í viskí og víni.

Laukur fimlega skorinn
með sænskum hníf,
smágerður eins og
kokkurinn.

Sjóðum okkur skeljar
saman tveir.

Látum tónlist óma
skálum fyrir liðinni tíð,
framtíð og
stundinni sjálfri.

Látum tárin renna,
grátmildir Gullar,
skeljalykt í skeggi.

Svona stundum
ber að safna og fagna
saman tveir.

Því síðasta kvöldmáltíðin
nálgast óðum.

Og svo, kaldann morgunn í febrúar, hringir mamma og segir mér að banalegunni sé lokið. Hann er laus við þjáningarnar, líkaminn gafst að lokum upp og ekki hægt að segja annað en að skrokkurinn sá hafi dugað lengi. Langafaklukkan stendur þögul þar sem enginn trekkir hana lengur upp. Sorgin laumast upp að mér, en ég sit í lest á leið til vinnu, 120 manns bíða eftir fyrirlestri svo hún verður að bíða. Sorgin sest á öxl mér, krækir fingrunum inn fyrir augnlokin og kreystir tárakirtlana. Ég sem við hana um að syrgja þegar ég er kominn heim. Ég ætla að setjast í hægindastólinn minn heima sem afi smíðaði fyrir 60 árum, taka síðustu löggina úr írsku viskíflöskunni sem hann gaf mér og ég er búinn að geyma í mörg ár (fyrir þessa stund), og skála við hann í síðasta skiptið. Þangað til þarf ég að taka mig taki, óþarfi að hræða aðra farþega.

Sorgin svarar „OK. En kannski nærðu að gráta á skrifstofunni líka?“.
„Jájá“, hvísla ég. „Við grátum aðeins á skrifstofunni líka“. Svo græt ég aðeins í lestinni samt. Sorgin faðmaði mig og vakti minningar um gleði, nánd og nærveru.

Ég róta í minninu eftir gömlu ljóði eftir son hans afa, móðurbróður minn, og rifja upp mér til huggunar…

En til lítils er að sýta
hin glaðværu andartök
stundir og ár
að baki.
Þegar ný sól rís
með morgni,
og hver stund dýrmæt.[1]

Brátt reisum við stein til minnis um afa, minnisvarða um hann en líka um okkur öll sem lifa og sakna hans. Því ef það er eitthvað sem við lærðum af honum og ömmu er það að ný sól rís að morgni og að hver stund er dýrmæt.


[1] Gísli Ágúst Gunnlaugsson, Gerðir, 1973

Comments are closed.

Blog at WordPress.com.

Up ↑